Innlent

Vill að aðkoma íslenska ríkisins að starfsemi United Silicon verði rannsökuð

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þingmaður Viðreisnar vill að aðkoma íslenska ríkisins að starfsemi kísilmálmverksmiðjunnar í Helguvík verði rannsökuð. Beðið er meðal annars um upplýsingar varðandi kostnað sem íslenska ríkið hefur lagt í verkefnið og forsendur fyrir umhverfismati.

Þegar þing hefst að nýju mun Hanna Katrín Friðriksson leggja fram beiðni um að Ríkisendurskoðun geri stjórnsýsluathugun á aðdraganda þess að United Silicon fékk starfsleyfi sitt og hvernig eftirfylgni hefur verð háttað.

Beiðnin er þríþætt. Í fyrsta lagi hvaða ríkisstyrki fyrirtækið hefur fengið í formi skattaívilnana en fyrir þremur árum komst eftirlitsstofnun EFTA að þeirri niðurstöðu að ívilnunarsamningar við fyrirtækið fælu í sér rekstraraðstoð en ekki fjárfestingaaðstoð og gengu því gegn EES samningnum.

„Ég veit hreinlega ekki hvar málið er statt varðandi viðbrögð íslenskra stjórnvalda þar að lútandi. Þetta eru gríðarlegir fjármunir sem um ræðir. Það er ekki gott að fara á svig við reglur og skekkja samkeppnisstöðuna. Svo ívilnum við aðilum - sem takast ekki betur til en þetta með verkefni sín," segir Hanna Katrín.

Í öðru lagi verði kannað hvaða forsendur lágu að baki umhverfismati.

„Hver sé munurinn á forsendum og raunveruleikanum. Og af hverju er sá munur því hann er klárlega til staðar.“

Og í þriðja lagi hvernig eftirliti er háttað og hvort ákveðið sé fyrirfram hve lengi aðilar fái að njóta vafans er upp koma vandamál enda bíði enn stærri verkefni á hliðarlínunni.

„Við þurfum eitt skipti fyrir öll að vita hvort við erum að standa nægilega vel að þessum málum. Hvort mögulega einhverjir hagsmunir séu að ráða ferð, sem eru ekki hagsmunir almennings eða náttúrunnar. Við þurfum að vita hvort stjórnvöld séu afvegaleidd og hvað gerir að verkum að þessi staða er komin upp núna. Við getum ekki haldið áfram á þessari braut.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×