Brynhildur Þóra Þórsdóttir heldur sína fyrstu einsöngstónleika í Seltjarnarneskirkju í kvöld klukkan 20. Hún syngur verk eftir Strauss, Tsjajkovskí og Schubert og kveðst líka ætla að lauma tveimur rússneskum aríum inn. „Meðleikarinn minn síðasta vetur var rússnesk kona og það kom mér á óvart hvað bæði tónlist og textar frá Rússlandi fóru vel í mig, svo ég ætla að spreyta mig á rússneskunni,“ segir hún. Hún bætir við að Helga Bryndís Magnúsdóttir, meðleikari hennar núna, hafi verið til í slaginn og gaman sé að vinna með henni.
Söngur og tónlist hafa fylgt Brynhildi frá unga aldri. Hún spilaði á selló í Tónlistarskóla Kópavogs til tvítugs, var líka í kór Kársnesskóla sem barn, færði sig í Gradualekórinn og lauk námi frá Söngskólanum í Reykjavík um leið og stúdentsprófi frá Kvennó. Eftir BA-nám í söng í Bandaríkjunum færði hún sig til Þýskalands og hefur stundað þar framhaldsnám sem hún stefnir á að ljúka næsta sumar. „Draumurinn er að halda áfram í óperusöng og fá einhvers staðar vinnu.“
Draumurinn að halda áfram í óperusöng
