
Af þessum 67 tilvikum eiga átta við um regnbogasilung en 59 tilvik eru skráð um veiði á hnúðlaxi.
Líklegt er að stangveiðimenn veiði aðeins brot af þeim eldisfiski sem syndir frjáls við strendur Íslands. Ekki er með nokkru móti hægt að gera sér grein fyrir magni eldisfisks en líklegt er að þessi 67 tilvik séu aðeins brotabrot af heildarumfanginu.

„Þessar tölur gefa það til kynna að íslenskt sjókvíaeldi sé ekki vandamál fyrir íslenskar ár. Í tölunum er enginn lax úr íslensku sjókvíaeldi. Einnig eru mjög fá tilfelli um veiddan regnbogasilung. Þessar tölur gefa því vísbendingar um að vel sé haldið á spöðunum í fiskeldi á Íslandi og slysasleppingar ekki vandamál þar,“ segir Einar.
Ekki eru þess dæmi að lax úr íslensku laxeldi í sjó hafi veiðst í ám í sumar. Aðeins er um hnúðlax að ræða í bókum Hafrannsóknastofnunar. Líklegt er þó að regnbogasilungurinn sé úr íslensku sjókvíaeldi.
„Þetta er mjög óæskileg þróun í íslenskri náttúru,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. „Hér eru á ferð strokufiskar úr eldi sem við viljum ekki sjá í íslenskri náttúru. Það skiptir sköpum fyrir íslenskt lífríki að við förum gætilega í þessum efnum. Skora ég einnig á alla þá veiðimenn sem telja sig hafa veitt þessi kvikindi að koma þeim til yfirvalda til rannsóknar hið snarasta svo hægt sé að skrá þessi tilvik og rannsaka.“