Körfubolti

Pavel: Þurfum að vera ákveðnir og skora meira

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pavel Ermolinksij segir að leikmenn Íslands muni ekki hengja haus eftir tæplega 30 stiga tap gegn Grikklandi á fyrsta leik sínum á EM í körfubolta í dag. Arnar Björnsson ræddi við hann eftir leikinn í dag.

„Við réðum ekki við þá í dag. Við vorum þarna í smástund,“ sagði Pavel eftir leikinn en munurinn á liðunum í hálfleik var aðeins fjögur stig. En svo hrundi allt.

„Við töluðum um það í hálfleik að við gætum ekki dottið niður. Við eigum ekki séns nema að viðhalda því og það gerðum við ekki.“

„Hins vegar er það góða við þetta að þegar við vorum að spila vel í öðrum leikhluta þá vorum við ekki að gera neina stórkostlega, ótrúlega hluti. Heldur bara einbeittir í því sem við gerum vel,“ sagði Pavel.

Hann tekur undir að Grikkjum hafi liðið illa í öðrum leikhluta og það er það sem íslenska liðið geri best - að fá leikmenn og lið til að líða illa.

„Flest þessi lið eru ekki vön að spila gegn liði eins og okkar. Það nýttum við okkur vel. En við verðum líka að vera ákveðnir sóknarlega og skora. Vörnin í dag var nefnilega fín.“

Hann segir að það sé ekkert stress í hópnum enda vissu allir að þetta yrði erfiður leikur.

„Grikkland er ein af þessum stóru körfuboltaþjóðum. En eftir þennan góða kafla í öðrum leikhluta er svekkjandi að hafa ekki náð að halda því. Nú mætum við Póllandi á laugardag sem er einfaldur andstæðingur á pappír og leikur sem við leggjum mikla áherslu á.“

„Næsti leikur er úrslitaleikur fyrir okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×