Tólf dælur á stöð Costco hafa gengið nánast linnulaust frá morgni til kvölds alla daga frá opnun enda fyrirtækið boðið lítraverð sem er allt að 30 krónum ódýrara. Það virðist sama hvenær dags er komið að dælustöðinni, alltaf er planið smekkfullt af bílum og biðröð með tugum bíla utan þess.
Forsvarsmenn Costco hafa hingað til ekki viljað gefa mikið upp um eldsneytissölu sína. Blaðamaður gerði sér ferð að dælustöð Costco um klukkan ellefu á föstudagsmorgun til að gera óformlega athugun á traffíkinni. Á aðeins fimmtán mínútum taldi hann 43 bíla sem komust inn á dæluplanið, sem fyrir var fullt að vanda. Það gerir rétt tæplega þrjá bíla á mínútu og að þessum 15 mínútum loknum taldi hann 21 bíl í biðröðinni til að komast inn á planið þar sem taka við fleiri biðraðir við eina af dælum stöðvarinnar.

„Maður sér þetta bara hvergi annars staðar.“
Guðrún segir að Atlantsolía finni fyrir áhrifum Costco líkt og aðrir en þar á bæ ætli þau sér að leyfa tímanum að líða og sjá hvernig málin þróast.
„Maður hefur engar tölur og áttar sig ekki á því hvað þeir eru að taka mikla hlutdeild eða frá hverjum. Ætli þeir séu ekki að taka jafn mikið af öllum.“
Guðrún segir aðspurð áhrifin ekki það alvarleg að grípa þurfi til niðurskurðar líkt og Fréttablaðið hefur greint frá að önnur fyrirtæki á borð við Papco hafi neyðst til að gera vegna samdráttar í kjölfar komu Costco. Vöruhúsið lúti þó allt öðrum lögmálum en Atlantsolía.
„Við seljum bara bensín og olíu á meðan þeir eru með eina stöð sem í raun er notuð sem aðdráttarafl fyrir verslunina en er ekki aðaltekjulind þeirra. Það var ljóst frá fyrsta degi að við myndum aldrei getað jafnað verðið þeirra þannig að við höfum farið aðrar leiðir.“
Bendir Guðrún á að félagið bjóði lægra verð á völdum stöðvum, til dæmis á Skemmuvegi þar sem lítrinn er tólf krónum ódýrari en ella. Þar gildi sömuleiðis afsláttarkjör í ofanálag þannig að minni munur sé á Atlantsolíu og Costco þar.