Þetta kemur fram í bréfi sem Umhverfisstofnun (UST) sendi fyrirtækinu í gærkvöldi. Fyrirtækið hefur viku andmælafrest. Kristleifur Andrésson, upplýsingafulltrúi United Silicon, segir ótímabært fyrir fyrirtækið að tjá sig um málið.
„Þetta er bréf sem felur í sér uppgjör á frávikum sem hafa verið greind við eftirlit hjá fyrirtækinu. Það felur líka í sér viðbrögð við hvernig hefur gengið frá því að þau fengu heimild til endurræsingar í maí. Það hafa komið upp frekari bilanir síðan þá með tilheyrandi lyktarmengun,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðstjóri hjá UST.
Fjallað var um stöðu mála í Helguvík í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær og rætt við Sigrúnu.
„Þetta er mjög leiðinlegt og sorglegt að mál þurfi að æxlast svona eins og verið hefur með mál United Silicon. Þetta hefur verið sorgarsaga alveg frá byrjun,“ segir Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Björt segir enn fremur að henni þyki undarlegt að þeir sem fari með fé almennings fjárfesti í fyrirtæki sem almenningur í nágrenninu hefur lýst yfir að hann sé á móti. „Hvernig geta stjórnendur lífeyrissjóða fundið út hjá sér að peningur almennings sé best ávaxtaður í fyrirtæki sem fólk er á móti og öll viðskiptasaga þess er á þennan veg?“