Hvítir þjóðernissinnar fjölmenntu á götur borgarinnar í gær til að mótmæla því að styttu af hershöfðingja úr Þrælastríðinu verði fjarlægð. Hópur fólks hefur nú brugðið á það ráð að blása til gagnmótmæla til að lýsa yfir stuðningi við að styttan verði fjarlægð, sem af mörgum þykir vera merki um svartan blett á sögu Suðurríkjanna.
Sjá einnig: Hvítir þjóðernissinnar fjölmenntu í göngu

Til stendur að fjarlægja styttu af Robert E. Lee, foringja herdeilda Suðurríkjanna í Þrælastríðinu. Lee var frá Charlottesville. Hvítu þjóðernissinnarnir gengu til að mótmæla því að styttan yrði tekin niður.
Jason Kessler, skipuleggjandi mótmælanna, hefur sakað borgina um hatur á hvítu fólki. Hann lýsti mótmælunum sem „ótrúlegri stund fyrir hvítt fólk sem er komið með meira en nóg og sættir sig ekki við meira“.
Göngumenn eru ennfremur sagðir hafa hrópað „ein þjóð, eitt land, stöðvið innflutning fólks“ og „gyðingar munu ekki velta okkur úr sessi.“
Borgarstjóri Charlottesville fordæmdi gönguna og kallaði þátttakendurnar kynþáttahatara. Margir töldu kyndlana sem göngumenn báru í gærkvöldi vísun í Ku Klux Klan, haturssamtökin alræmdu.