„Ef þú talaðir við James um stund, kom samúð hans með nasismanum í ljós, sem og aðdáun hans á Hitler og trú hans á yfirráð hinna hvítu,“ sagði félagsfræðikennari Fields, Derek Weimer, við AP fréttaveituna.
„Þetta var óhugnanlegt.“
Fields hefur verið ákærður, meðal annars fyrir morð, fyrir að aka bíl sínum inn í hóp fólks sem var að mótmæla samkomu þjóðernissinna vegna fyrirhugaðs niðurrifs styttu af Robert E. Lee, hershöfðingja Suðurríkjanna í þrælastríði Bandaríkjanna. Samkoman bar nafnið „Endurheimtum Bandaríkin“.
Ein kona lét lífið og minnst 19 slösuðust.
Weimer segir stjórnendur skóla Fields hafa vitað af aðdáun hans á nasisma og reynt hafi verið að taka á því. Hann yfirgaf skólann þó um stund og þegar hann sneri aftur segir Weimer að hann hafi ekki talað jafn mikið um stjórnmál. Þar til kosningabaráttan fyrir forsetakosningar hófst.
Fields var mikill aðdáandi Trump vegna þeirra skoðana sem hann taldi að Trump hefði varðandi kynþætti. Hann var mjög hlynntur því að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Þá vildi Fields ganga til liðs við herinn í Bandaríkjunum og Wiemer, sem er fyrrverandi hermaður, segist hafa hjálpað honum með umsóknina í herinn. Honum var þó hafnað þar sem hann stóðst ekki líkamleg próf hersins. Hernaðaryfirvöld hafa staðfest þessa frásögn kennarans.