Innlent

Nýlega greindur með alzheimer og leiðir fjölskylduna áfram í Reykjarvíkurmaraþoni

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Aldrei hafa fleiri hlaupið til styrktar Alzheimersamtökunum en nú í ár. Hlaupahópurinn „Gleymum ekki gleðinni“ samanstendur af fjölskyldu og vinum Stefáns Hrafnkelssonar sem greindist nýlega með alzheimer. Hann hljóp fremstur í flokki - og að sögn barna hans - leiddi hópinn áfram.

Stefán greindist með alzheimer nýlega, aðeins 59 ára gamall. Hann hefur það að markmiði að halda áfram að njóta lífsins í stað þess að lifa í skugga veikindanna.

„Ég hef gert það og hef engar vangaveltur um það. Ég bara held mínu striki," segir hann. 

Fréttir Stöðvar 2 hitti Stefán og þrjú börn hans á hlaupaæfingu í vikunni en þau hlupu öll í maraþoninu í dag til styrktar Alzheimersamtökunum.

Stefán er fyrstur með alzheimer-greiningu til að hlaupa til styrktar samtökunum en hingað til hafa eingöngu aðstandendur verið í hlaupagöllunum. Hann ætlar að hlaupa tíu kílómetra og börnin hans þrjú hlaupa með honum.

„Það er að segja ef við náum að halda í við pabba, sem er í betra formi," segir Hrafnkell, sonur Stefáns. Stefán segist nú ætla að bíða eftir þeim.

Fjölskyldan er í hlaupahópnum „Gleymum ekki gleðinni“ og hefur safnað 400.000 krónum en hægt er að heita á hópinn fram í næstu viku. Fjölskyldan er samheldin og einblínir á að takast á við ný verkefni af gleði og jákvæðni.

„Við systkinin þrjú hlaupum með pabba og svo öll sex systkini pabba,“ segir Arndís, dóttir Stefáns. Stefán segist sjálfur vera snortinn yfir stuðningnum og vonast til að vera öðrum alzheimersjúklingum hvatning til góðra verka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×