Fyrsti leikur Pepsi-deildar kvenna í fótbolta eftir EM-frí fer fram á Grindavíkurvelli í kvöld.
Pepsi-deildin átti að vera í fríi þar til eftir Verslunarmannahelgi en einn leikur var færður fram vegna þátttöku Stjörnunnar í forkeppni Meistaradeildar kvenna.
Leikur Grindavíkur og Stjörnunnar átti fara fram 19. ágúst klukkan 14.00 á Grindavíkurvelli en fer nú fram í kvöld klukkan 19.15 á Grindavíkurvelli.
Ástæða breytingarinnar er að síðar í ágúst tekur Stjarnan þátt í forkeppni Meistaradeildar kvenna. Forkeppnin verður leikin í tíu fjögurra liða riðlum og munu sigurvegararnir fara í lokakeppni mótsins auk þess liðs sem nær bestum árangri í öðru sæti riðlakeppninnar.
Riðill Stjörnunnar verður leikinn í Króatíu 22.til 28. ágúst en auk Stjörnunnar eru í riðlinum ŽNK Osijek frá Króatíu, Klaksvík Ítrottarfelag frá Færeyjum og ŽFK SC Istatov frá Makedóníu.
Athygli vekur þó að leikurinn er settur á sama tíma og leikur í undanúrslitum EM kvenna í fótbolta. Undanúrslitaleikur Hollands og Englands hefst klukkan 18.45 í kvöld að íslenskum tíma.
Það hefur ekki verið vinsælt að fara með leikinn nær Verslunarmannahelginni og því þurfa stelpurnar og stuðningsfólk liðanna að fórna öðrum undanúrslitaleiknum á EM. Þau ná hinsvegar fyrri undanúrslitaleik Danmerkur og Austurríkis sem hefst klukkan 16.00.
Stjarnan getur minnkað forskot Þór/KA á toppi Pepsi-deildar kvenna í þrjú stig með sigri í Grindavík í kvöld.
Færðu Pepsi-deildar leik kvenna á sama tíma og undanúrslit EM kvenna
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


„Komum Gylfa Þór meira í boltann“
Fótbolti



Mac Allister: Liverpool er bara rétt að byrja
Enski boltinn



„Þetta er eins og eldgamla tómatsósan“
Íslenski boltinn

