Koma Neymar til franska liðsins Paris Saint Germain var staðfest í gær en Brasilíumaðurinn er nú lang dýrasti knattspyrnumaður sögunnar.
Neymar kostaði franska félagið um 200 milljónir punda, eða 27 og hálfan milljarð íslenskra króna. stjórn Parísar-liðsins ákvað að einfaldlega að nýta sér klásúlu í samningi Neymar við Barcelona sem skildaði Barcelona til þess að samþykkja tilboðið. Hann skrifaði undir risa samning, er með 106 milljónir króna á viku, eða 424 milljónir á mánuði.
Hann er meira en tvöfalt dýrari en Paul Pogba, sem var fyrir gærdaginn, dýrasti knattspyrnumaður heims.
Gareth Bale er í þriðja sæti, rétt ódýrari en Pogba og þar á eftir liðsfélagi hans Cristiano Ronaldo sem skipti um lið árið 2009 og var þá lang dýrastur í sögunni.
Upphæðin hefur vakið mikla athygli, enda úr öllum takti við fyrri met af þessu tagi.
Fyrir peninginn sem Neymar kostaði hefði stjórn París Saint Germain getað keypt 55 þúsund Costco-fíla.
Fyrir upphæðina sem Neymar kostaði hefði verið hægt að kaupa 56 náttborð í Ikea fyrir hvern einasta Íslending.
Og stjórn Paris Saint Germain hefði getað bókað Íslandsvinina til þess að spila í einkapartíi, á hverjum degi í heilt ár, miðað við verðskrá sem birtist í fjölmiðlum erlendis.
Og launin, þau geta keypt ýmislegt. Ef við gefum okkur að sextán þúsund manns verði á Þjóðhátíð í Eyjum og að Neymar hafi sýnt fyrirhyggju og keypt miðana í forsölu – þá hefði hann verið tæpa átján daga að þéna nóg til að kaupa miða handa öllum viðstöddum.
Neymar fær nefnilega rúmar 15 milljónir á dag, tæplega 631 þúsund krónur á hvern klukkutíma og meira en 10 þúsund 515 krónur á hverja mínútu sólarhringsins.
Og fyrir að horfa á fréttina sem má sjá í spilaranum hér fyrir ofan hefði Neymar þénað 17525 krónur.
