Skoðun

Leiksýning fjármálaráðherra

Lilja Dögg Alfreðsdóttir skrifar
Íslensk hagstjórn stendur frammi fyrir tveimur umfangsmiklum verkefnum á næstu misserum. Annars vegar að byggja upp traust á fjármálakerfinu og hins vegar að endurskoða peningastefnuna.

Til að auka traust og tiltrú á fjármálakerfinu og stofnanaumgjörðinni er nauðsynlegt að ráðist sé í breytingar og að eftirlit með fjármálastofnunum verði fært undir einn hatt í stað tveggja eins og er í dag. Sameina þarf starfsemi Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins er lýtur að bankaeftirliti. Í byrjun júlímánaðar tók gildi ný eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Engin framtíðarsýn er sett þar fram fyrir utan það að selja skuli eignarhluti í bönkunum. Ríkisstjórnin stefnir að því að ríkið eigi 34-40 prósenta eignarhlut í Landsbankanum hf. til langframa en annað verði selt þegar hagfelld og æskileg skilyrði eru fyrir hendi. Engin haldbær rök eru færð fyrir því hvers vegna ríkissjóður hyggst eiga að hámarki 40 prósent í Landsbankanum, en ekki meira eða minna. Ástæða þess er einföld, það skortir sýn í þessu veigamikla máli.

Til þess að stefnumótun sé farsæl og trúverðug þarf bæði skýra framtíðarsýn og góðan undirbúning. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur hafnað gjaldmiðli þjóðarinnar án þess að vera búinn að undirbúa málið nokkuð innan ríkisstjórnarinnar. Skipuð var verkefnastjórn um endurmat á peningastefnu þar sem gengið er út frá því að umgjörð krónunnar verði bætt. Óskað hefur verið eftir samvinnu og sátt um vinnu þessarar verkefnastjórnar. En hvernig er það hægt þegar fjármála- og efnahagsráðherra ætlar sjálfur ekki að leyfa verkefnastjórninni að vinna í friði og er kominn með fyrirframgefna niðurstöðu? Hvað mun ráðherrann gera ef verkefnastjórnin kemst að annarri niðurstöðu en ráðherrann? Er Viðreisn þá sætt í ríkisstjórninni? Eða er ekkert að marka orð fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann tekur afstöðu í grundvallarmáli eins og þessu? Það er fáheyrt að fjármálaráðherra þjóðríkja tali gegn eigin gjaldmiðli. Ef mark er tekið á ráðherranum þá veikist gjaldmiðillinn og almenningur verður fyrir kjararýrnun.

Þetta nýjasta krónufrumhlaup ráðherrans minnir okkur á þegar hann ætlaði að kasta 10.000 króna seðlinum án æskilegs undirbúnings og hörfaði á mettíma af leiksviðinu með málið. Þjóðin á betri vinnubrögð og undirbúning skilið.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×