Handbolti

Sorglegur endir Íslands á HM eftir tap

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Strákarnir hafa spilað vel í Alsír.
Strákarnir hafa spilað vel í Alsír.
Ísland er úr leik á HM leikmanna 21 árs og yngri eftir að hafa tapað fyrir Túnis í 16-liða úrslitum í dag, 28-27. Túnis hafði forystu í hálfleik, 14-13.

Niðurstaðan er sorgleg fyrir íslenska liðið enda hafði það spilað vel á mótinu til þess. Leikmenn höfðu sagt fyrir mót að þeir ætluðu sér alla leið og vinna gull.

Jafnt var á flestum tölum í fyrri hálfleik en Túnisar voru með frumkvæðið sem og í upphafi síðari hálfleiks. Íslendingar komu til baka, ekki síst vegna framlags Óðins Þórs Ríkharðssonar sem átti stórleik og skoraði hvert markið á fætur öðru.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var staðan 19-17, Túnis í vil, en þá tók Óðinn Þór til sinna mála. Hann skoraði fimm mörk í röð fyrir Ísland og breytti stöðunni í 22-20.

Mikil spenna var á lokamínútunum og fengu Íslendingar þó nokkur tækifæri til að síga fram úr. Allt kom þó fyrir ekki. Elvar Örn Jónsson jafnaði metin þegar 50 sekúndur voru eftir en Anouar Ben Abdallah kom Túnis aftur yfir, 28-27, þegar fimmtán sekúndur voru eftir.

Íslendingar héldu í sókn og fengu aukakast þegar þrjár sekúndur voru eftir. Ómar Ingi Magnússon skaut að marki úr erfiðri stöðu en skot hans var varið.

Óðinn Þór átti sem fyrr segir stórleik en hann skoraði átta mörk í tíu skotum. Ómar Ingi, Arnar Freyr Arnarsson og Sigursteinn Rúnarsson skoruðu fjögur mörk hver. Ómar Ingi tók þrettán skot í leiknum.

Grétar Ari Guðjónsson stóð í marki Íslands allan leikinn og varði tólf skot.

Skander Zaied var markahæstur hjá Túnis með ellefu mörk en hann tók alls 24 skot í leiknum. Ben Abdallah skoraði sjö mörk í tíu skotum.

Íslenska liðið vann fyrstu fjóra leiki sína á mótinu en tapaði síðustu tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×