Stofnað hefur verið nýtt útgáfufyrirtæki sem ber nafnið figureight en þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Að baki fyrirtækisins standa Shahzad Ismaily og Hildur Maral Hamíðsdóttir.
Shahzad er tónlistarmaður og sannkallaður Íslandsvinur sem hefur spilað með fjölmörgum íslenskum listamönnum undanfarin ár, en jafnframt getið sér gott orð með listamönnum á borð við Bonnie ‘Prince’ Billy, Lou Reed, Tom Waits og John Zorn. Hildur hefur starfað við tónlist í 13 ár, til að mynda innan plötufyrirtækja, sem umboðsmaður, við kynningarstörf og tónlistarhátíðir.
Í tilkynningunni segir að Figureight leggi mikið upp úr að vinna náið með listamönnum útgáfunnar og þeirra listrænu sýn.
„Þó að listamennirnir séu á víð og dreif í landafræðilegum skilningi sem og í hljóðheiminum sem þeir skapa þá á tónlistin það sameiginlegt að vera einlæg, einstök og einkar áhugaverð,“ segir í tilkynningunni.
Útgáfan er þegar með átta listamenn á sínum snærum og deilist þjóðerni þeirra jafnt á Ísland og Bandaríkin. Á hennar vegum hafa þegar komið út platan Makríl eftir Indriða auk þess sem plata JFDR frá því í mars, Brazil, kom út í samstarfi við fyrirtækið. Fleiri plötur eru væntanlegar á næstu mánuðum og verður tilkynnt um þær síðar.
figureight á Facebook
figureight á Twitter
Heimasíða figureight

