Starfshópur sem Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, skipaði fyrr í sumar vegna skattskyldu af erlendri ferðaþjónustustarfsemi hér á landi leggur til að erlendum rútufyrirtækjum verði gert að greiða skatta hér á landi.
Þá er jafnframt lagt til að innheimt verði sérstakt gjald fyrir hvern farþega sem er um borð í skemmtiferðaskipi á meðan á innanlandssiglingum þess stendur og myndi gjaldið þá svara sem næst til þeirra skatta, tolla og annarra gjalda sem útgerð skips þyrfti að greiða ef starfsemin væri skráð hér á landi.
Starfshópurinn var skipaður vegna ábendinga sem fram hafa komið undanfarið um ójafna samkeppnisstöðu íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum, ekki hvað síst á sviði hópferða.
Helstu niðurstöður starfshópsins voru þær að 19 hópferðabílar á erlendum skráningarnúmerum sem skráðar eru í bráðabirgðaafgreiðslu vegna tímabundins innflutnings væru starfræktar hér á landi sem stendur.
„Þó geta fleiri hópferðabifreiðar verið á landinu í lögmætum tilgangi, án þess að skattar eða gjöld séu innheimt hér á landi, en það á við þegar þær koma til landsins í tiltekinn tíma með einn hóp ferðamanna sem fer af landi brott með sömu hópferðabifreiðinni,“ segir á vef Stjórnarráðsins.
Starfshópurinn leggur sem sagt til að lögfest verði skattskylda erlendra ferðaþjónustufyrirtækja sem eru í skattskyldri starfsemi hér á landi og skulu fyrirtækin standa skil á skattgreiðslum áður en ökutæki eru flutt úr landi.
Nánar má kynna sér tillögur starfshópsins hér.
Leggja til að erlend rútufyrirtæki og skemmtiferðaskip greiði skatta hér á landi
Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
