Virði 12,7 prósenta hlutarins sem fagfjárfestasjóðurinn ORK mun eignast í HS Orku er rúmir sjö milljarðar króna samkvæmt verðmati á félaginu sem gert var í lok síðasta árs. Virði eignarhlutar íslenskra lífeyrissjóða í félaginu gæti þannig samtals orðið um 25,3 milljarðar króna.
Kanadíska orkufélagið Alterra greindi frá því í síðustu viku að dótturfélag sitt, Magma Energy, ætti í viðræðum við íslenska fagfjárfestasjóðinn ORK, sem er að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða, um uppgjör á skuldabréfi sem Magma gaf út við kaup á hlut sínum í HS Orku. Af tilkynningu Alterra má ráða að Magma hyggst ekki endurfjármagna lánið, heldur er gert ráð fyrir að ORK gangi að veði þess og yfirtaki þannig 12,7 prósenta hlut í HS Orku af Magma. Hlutur Magma mun því minnka úr 66,6 prósentum í 53,9 prósent, en fyrir eiga fjórtán lífeyrissjóðir 33,4 prósenta hlut í HS Orku í gegnum félagið Jarðvarmi.
Íslenskir lífeyrissjóðir munu því samtals eiga 46,1 prósent hlut í orkufélaginu að virði rúmlega 25 milljarða króna. Eignarhlutur Jarðvarma var metinn á 18,3 milljarða króna í bókum félagsins í lok árs 2016, en samkvæmt því er markaðsvirði HS Orku 54,8 milljarðar króna. Hefur það hækkað um 31 prósent á undanförnum fimm árum.
Skuldabréfið, sem var á lokagjalddaga í gær, 16. júlí, var metið á tæpa 7,4 milljarða króna í lok júnímánaðar. ORK keypti bréfið af Reykjanesbæ í ágúst 2012 en þá nam kaupverðið tæpum 6,3 milljörðum króna.
Eins og Markaðurinn hefur greint frá var þrjátíu prósenta hlutur HS Orku í Bláa lóninu settur í söluferli um miðjan maí. Bárust tilboð í hlutinn frá nokkrum erlendum fjárfestingarsjóðum, en þau gefa til kynna að HS Orka geti fengið í kringum tíu milljarða króna fyrir söluna.
Hlutur ORK metinn á rúma sjö milljarða
Kristinn Ingi Jónsson skrifar

Mest lesið

Trump hafi „ekki hugmynd“ um hvað hann sé að gera
Viðskipti erlent


Færri fara til Bandaríkjanna en fækkunin hvað mest frá Íslandi
Viðskipti erlent

Kínverjar svara fyrir sig og hækka enn tolla á bandarískar vörur
Viðskipti erlent

Álögur ríkisins á bankana lendi að miklu leyti á almenningi
Viðskipti innlent

Icelandair skrúfar fyrir fría gosið
Viðskipti innlent

Órói á mörkuðum heldur áfram og gullverð aldrei hærra
Viðskipti erlent

Þriggja ára fangelsi og tveggja milljarða sekt
Viðskipti innlent


Að tilkynna vinnufélaga til lögreglu
Atvinnulíf