Innlent

Segir skýrslu Hafró aðeins innlegg í umræðuna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hafró leggst gegn fiskeldi í Ísafjarðardjúpi.
Hafró leggst gegn fiskeldi í Ísafjarðardjúpi. vísir/pjetur
Kristján P. Davíðsson, framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva, segist ekki líta á nýja skýrslu Hafrannsóknastofnunar, þar sem lagst er gegn auknu laxeldi í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði, sem „endanlegan stóra dóm“. Skýrslan sé aðeins innlegg í umræðuna.

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar leggja til að eldi verði ekki leyft í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði. Þá mæla sérfræðingarnir gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá. Fiskeldisfyrirtæki hafa áform um stóraukið fiskeldi á þessum svæðum.

„Það hlýtur að þurfa að rýna þetta mat Hafró faglega og taka síðan póli­tíska ákvörðun um það hvort ýtrasta mati verði fylgt eða hvort það verði gerðar einhverjar málamiðlanir,“ segir Kristján. Hann segir augljóst að þrjátíu þúsund tonna eldisframleiðsla, eins og áformað er í Ísafjarðardjúpi, muni skapa mörg hundruð störf. Vega þurfi þá samfélagslegu hagsmuni á móti hagsmunum nokkurra hundraða laxa í tveimur ám sem skapi engin störf. „Ég hef sagt að það væri nú einkennilegt ef hver einasti villilax á Íslandi nyti forgangs umfram samfélögin, hvort sem það er á Vestfjörðum eða Austfjörðum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×