Ostapenko vann Opna franska risamótið í tennis í byrjun júnímánaðar og hvöttu áhorfendur á mótinu hana áfram sem Alona, ekki Jelena.
„Það veit næstum enginn að ég heiti Alona. Í Lettlandi vita það flestir, en í alþjóðatennisheiminum vita það fáir,“ sagði Ostapenko í viðtali við New York Times.
Ostapenko er um þessar mundir að keppa á Wimbledon-mótinu í Lundúnum. Þar er hún komin í fjórðu umferð mótsins í fyrsta skipti á ferlinum og mætir Elina Svitolina á morgun, mánudag.
Móðir Ostapenko vildi skíra dóttur sína Alona en nafnið, sem er af úkraínskum uppruna, sé ekki löglegt í Lettlandi því það sé ekki á nafnadagatalinu þar í landi.

Mörg lönd eru með ýmsar reglur varðandi nafngift á börnum, við þurfum ekki að leita lengra en til mannanafnanefndar hér á Íslandi. Sérfræðingar í lettneskri menningu segja þó að Ostapenko og móðir hennar séu ekki að fara með rétt mál.
Lettneska dagatalið sem þær vitna í er notað til þess að halda upp á nafnadaga, hefð sem er við lýði til dæmis í Svíþjóð. Á hvern dag eru skráð nokkur nöfn og á þeim degi getur fólk sem heitir nöfnum dagsins haldið upp á nafnadaginn sinn.
Paula Pralina, starfsmaður utanríkisráðuneytis Lettlands, sagði að það væru engin lög sem kæmu í veg fyrir að fólk skírði börnin sín nöfnum sem væru ekki á nafnadagatalinu.
Ostapenko segist hafa hugsað um að breyta nafninu sínu í Alona, en telur það sé of mikil hætta á misskilningi í tennisheiminum geri hún það. Eftir að hún náði þeim frábæra árangri að vinna Opna franska risamótið þá er lettneska ríkisstjórnin að íhuga að bæta Alona-nafninu inn á nafnadagatalið.