Morgunblaðið greindi frá því í gærmorgun að Jón Gunnarsson, samgönguráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vonaðist til að hægt verði að hefja framkvæmdir á næsta ári. Slíkar framkvæmdir má þó ekki finna í Fjármálaáætlun 2018-2022.
Jón hyggst skipa nýjan starfshóp sem falið verður að meta flugvallarkosti fyrir innanlandsflugið. Áður hafði slíkur hópur í svonefndri Rögnunefnd komist að þeirri niðurstöðu að Hvassahraun væri álitlegasti kosturinn fyrir nýjan innanlandsflugvöll. Að mati Jóns er miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýri.

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, vill flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni. „Ég ætlast til að fólk vinni eftir þeim sáttmála sem lagður er fyrir ríkisstjórnina. Annars er fólk að fara fram úr sínu umboði,“ segir Björt.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að borgin þurfi að gefa leyfi fyrir þessum framkvæmdum. „Þetta þarf að vera í samræmi við skipulag. Við erum búin að breyta skipulagi þannig að þetta sé hægt en það er með þeim skilyrðum að þetta séu byggingar sem auðvelt er að færa og borgin mun ekki lenda í einhverri bótaskyldu ef skipulag breytist.

„Nú hef ég ekki séð neinar hugmyndir að erindisbréfi eða verkefni þessa starfshóps um málið sem ráðherra vill setja upp, en mér finnst gott að setja málið í farveg svo sé hægt að taka næstu skref.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tísti í gær að framtíð innanlandsflugs væri ekki í Vatnsmýri. Að ætla annað væri sóun á dýrmætum tíma og peningum.
Í svipaðan streng tók flokksfélagi hennar Hanna Katrín Friðriksson, sem ritaði á Facebook að það væri hennar skoðun að framtíðarsetning innanlandsflugs væri utan miðborgar Reykjavíkur.
Ungliðahreyfing Viðreisnar hefur sömuleiðis sent frá sér yfirlýsingu þar sem áformin eru gagnrýnd.