Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í dag að veita bandaríska verslunarrisanum Costco leyfi til að stækka bensínstöð sína við Kauptún.
Beiðni fyrirtækisins var tekin fyrir á fundi bæjarráðs í liðinni viku og var þá samþykkt að vísa henni til byggingarfulltrúa bæjarins. Þá var tækni-og umhverfissviði bæjarins einnig falið að skoða möguleika á breikkun vegar við aðkomu að bensínstöð.
Samkvæmt erindi Costco vill fyrirtækið bæta fjórum bensíndælum en fyrir eru tólf dælur. Í erindinu kemur fram að samkvæmt deiliskipulagi Kauptúns frá því í fyrra er heimild fyrir fjórum dælueyjum með tveimur afgreiðslueiningum hver. Nú þegar eru á bensínstöðinni þrjár dælueyjar með tólf slöngum og vill verslunin fjölga þeim um fjórar í samræmi við fyrrnefnt deiliskipulag.
„Bensínstöðin starfar nú þegar við hámarksgetu og myndi njóta góðs af fjórum dæluslöngum til viðbótar til að bæta umferðarflæði um svæðið,“ sagði í erindinu og var óskað eftir því að afgreiðslu þess yrði flýtt eins og kostur er.
Garðabær hefur nú orðið við því eins og áður segir en ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega bensínstöðin verður stækkuð.
Mbl greindi fyrst frá samþykkt bæjarráðs Garðabæjar í dag.
