Kviðdómendur í máli bandaríska skemmtikraftsins Bill Cosby kváðust í dag vera komnir í strand með málið en þeir höfðu þá setið á rökstólum í meira en 30 klukkustundir án þess að komast að niðurstöðu.
Dómarinn skipaði þeim að setjast aftur niður og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu en í orðsendingu sem kviðdómurinn sendi dómaranum sagði að kviðdómendur gætu ekki komið sér saman um neitt í málinu.
Cosby, sem er 79 ára gamall, er ákærður fyrir að hafa byrlað konu ólyfjan sem og misnotað hana kynferðislega árið 2004 en fjöldi kvenna hefur undanfarin misseri stigið fram og sakað skemmtikraftinn um kynferðisofbeldi.
Það var þó aðeins ákært í einu máli þar sem mörg önnur málanna voru fyrnd. Cosby hefur staðfastlega neitað öllu og sagt að samskipti sín við konurnar hafi verið með samþykki þeirra.
