Sandra Stephany Mayor Gutierrez skoraði öll þrjú mörk Þórs/KA þegar liðið bar sigurorð af Breiðabliki, 1-3, í 16-liða úrslitum Borgunarbikars kvenna í dag.
Sigurganga Þórs/KA heldur því áfram en liðið hefur unnið alla átta leiki sína í deild og bikar í sumar.
Borgarstjórinn Sandra á ekki lítinn þátt í þessu góða gengi en hún hefur skorað átta mörk í átta leikjum í sumar.
Sandra kom Þór/KA yfir á 24. mínútu eftir sendingu frá Huldu Ósk Jónsdóttur. Tveimur mínútu fyrir hálfleik skoraði Sandra sitt annað mark úr vítaspyrnu sem Hulda Ósk sótti.
Svava Rós Guðmundsdóttir minnkaði muninn á 51. mínútu eftir frábæra sendingu Selmu Sólar Magnúsdóttur en Sandra kláraði dæmið þegar hún skoraði sitt þriðja mark á 73. mínútu. Lokatölur 1-3 og ríkjandi bikarmeistarar Breiðabliks úr leik.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
Borgarstjórinn sá um Blika
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
