Þýskur karlmaður á sjötugsaldri sem ók bifreið og hjólhýsi sem fuku út af Suðurlandsvegi við Freysnes á fimmtudag er látinn. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar hefur kona hans sem slasaðist minna verið útskrifuð af sjúkrahúsi.
Slysið og tildrög þess eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Ekki er unnt að veita upplýsingar um nafn hins látna að svo stöddu.
Bíllinn valt skammt vestan við Freysnes í Öræfum í hádeginu á fimmtudag. Um var að ræða jeppa með hjólhýsi í eftirdragi en hann hafði fengið á sig vindhviðu með þeim afleiðingum að jeppinn valt úr fyrir veg.
Sjá einnig:Alvarlega slasaður eftir bílveltu
Lögregla, sjúkraflutningamenn, björgunarsveit og slökkvilið var kallað út vegna atviksins. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór til móts við sjúkraflutningamenn og sótti fólkið.
Vindhviður náðu allt að 35 metrum á sekúndu á svæðinu þegar slysið varð.
Þýskur ferðamaður látinn eftir bílveltu
Kjartan Kjartansson skrifar
