Handbolti

Fátt um varnir í tapi fyrir Norðmönnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk.
Ómar Ingi var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk. vísir/getty
Ísland beið lægri hlut fyrir Noregi, 36-30, í fyrsta leik liðsins á Gjensidige Cup, fjögurra liða æfingamóti í Noregi.

Fjölmarga sterka leikmenn vantar í íslenska liðið, þ.á.m. alla þá sem spila í Þýskalandi. Yngri og óreyndari leikmenn fá því tækifæri til að láta ljós sitt skína á mótinu.

Leikurinn var jafn til að byrja með en í stöðunni 6-5 skoruðu Norðmenn átta mörk gegn tveimur og náðu góðri forystu sem þeir létu ekki af hendi.

Ísland endaði fyrri hálfleik ágætlega en að honum loknum var staðan 19-15, Noregi í vil.

Íslenska liðið náði aldrei að minnka muninn í meira en þrjú mörk í seinni hálfleik og Norðmenn unnu að lokum sex marka sigur, 36-30.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur í íslenska liðinu með átta mörk. Ólafur Guðmundsson skoraði sex mörk, þar af fimm í fyrri hálfleik. Theodór Sigurbjörnsson, Arnar Freyr Arnarsson og Tandri Már Konráðsson skoruðu þrjú mörk hver.

Sander Sagosen, Magnus Søndenå, Espen Lie Hansen og Magnus Jøndal skoruðu fimm mörk hver fyrir Noreg.

Næsti leikur Íslands gegn Póllandi á morgun.

Mörk Íslands:

Ómar Ingi Magnússon 8, Ólafur Guðmundsson 6, Theodór Sigurbjörnsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 3, Tandri Már Konráðsson 3, Vignir Stefánsson 2, Kári Kristján Kristjánsson 2, Gunnar Steinn Jónsson 2, Ýmir Örn Gíslason 1.

Varin skot:

Stephen Nielsen 8, Sveinbjörn Pétursson 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×