Manchester United er verðmætasta fótboltafélag Evrópu en KPMG metur félagið á meira en þrjá milljarða evra í nýju mati sínu.
KPMG er eitt af fjórum stóru endurskoðunar- og fjáramálaráðgjafa félögum heims og það skoðaði 32 stærstu fótboltafélög Evrópu ítarlega í þessari könnun sinnu.
Verðmæti United eru 3,09 milljarðar evra eða meira en 346 milljarðar íslenskra króna sem er engin smá upphæð. BBC segir frá niðurstöðum KPMG.
Manchester United er ofar en spænsku félögin Real Madrid (2,97 milljarðar evra) og Barcelona (2,76 milljarðar evra) sem koma í næstu sætum á eftir. Bayern er síðan ofar en næsta enska félag sem er Manchester City.
Skoðaðar voru tekjur vegna sjónvarpsréttar, arðsemi, vinsældir, möguleiki á afrekum innan vallar og hvort félagið eigi leikvang sinn eða ekki svo eitthvað sé nefnt. Unnið var með upplýsingar frá tímabilunum 2014-15 og 2015-16.
Ensku liðin eru mörg ofarlega en enska úrvalsdeildin á sex félög innan á topp tíu listanum yfir verðmætustu fótboltafélag Evrópu.
Verðmæti fótboltafélaganna eru að aukast en verðmæti tíu þeirra fór yfir einn milljarð evra sem er tveimur fleiri en í sömu könnun árið 2016.
Enska félagið Tottenham Hotspur og ítölsku meistararnir í Juventus koma ný inn á topp tíu listann en Tottenham komst upp fyrir franska félagið Paris Saint-Germain.
Tíu verðmætustu fótboltafélögin í Evrópu eru:
Manchester United - 3,09 milljarðar evra
Real Madrid - 2,97 milljarðar evra
Barcelona - 2,76 milljarðar evra
Bayern München - 2,44 milljarðar evra
Manchester City - 1,97 milljarðar evra
Arsenal - 1,95 milljarðar evra
Chelsea - 1,59 milljarðar evra
Liverpool - 1,33 milljarðar evra
Juventus - 1,21 milljarður evra
Tottenham - 1,01 milljarður evra
