Veðurstofa Íslands spáir allt að 20 stiga hita á landinu í dag eða enn einum ágætum vordeginum, samkvæmt veðurfræðingi. Búast má við hægum vindi og sólskini víðast í flestum landshlutum. Hlýjast verði inn til landsins fyrir norðan og vestan en svalara á morgun. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar þar sem spáð er hægviðri eða hafgolu í dag og að víða verði léttskýjað.
Búast má við þokulofti við austurströndina en austlægri átt 8 til 15 m/s við suðurströndina síðdegis.
Á morgun má hins vegar búast við smá vætu sunnan til, en hægara og bjartara veðri fyrir norðan.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Austlæg átt, 5-10 m/s. Dálítil rigning suðaustan til, en annars skýjað með köflum og stöku skúrir. Hiti 8 til 16 stig.
Á miðvikudag:
Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað og sums staðar þokuloft norðan til á landinu. Skýjað með köflum sunnan til og yfirleitt þurrt. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.
Á fimmtudag (uppstigningardagur):
Suðaustlæg átt og rigning með köflum, en úrkomulítið norðaustan til. Hiti 8 til 16 stig.
Á föstudag og laugardag:
Breytileg vindátt, skýjað að mestu og víða dálítil væta. Heldur kólnandi veður.
