Á sýningunni eru gripir, módel, skissur, tæki og teikningar sem tengjast beislun vatns og orku og þeim ýmsu kerfum sem tilheyra borgarskipulagi, bæði ofan jarðar og neðan. Framsýnar hugmyndir frá upphafi 20. aldar, sem margar hverjar komu til framkvæmda í einhverri mynd.

„Hér erum við með gamalt módel af byggingu milli hitaveitutankanna í Öskjuhlíð sem Eiríkur Einarsson og Sigurður Guðmundsson gerðu 1951. Þar er veitingastaður í miðjunni. En Perlan sem við þekkjum í dag reis fjörutíu árum seinna, Ingimundur Sveinsson er arkitekt að henni,“ útskýrir Anna María.

„Við erum með skissu af verki eftir Ragnar, það er stórt umhverfislistaverk sem hann vann fyrir flugvöllinn í Bergen og verður væntanlega sett þar upp á næsta ári. Það vísar í ímynd borga nútímans og ímynd borgara nútímans,“ útskýrir Anna María. „Reykjavík er þungamiðja sýningarinnar en sýningin fjallar samt almennt um hvernig borgir verða til, hvernig við mannfólkið mótum borgirnar og borgirnar móta okkur. Það er víðfeðmt efni og vonandi spennandi fyrir fólk að skoða.“
Sýningin Borgarveran stendur fram á haust. Samhliða henni stendur Norræna húsið fyrir fjölbreyttri viðburðadagskrá um arkitektúr og skipulagsmál. Sýningin og dagskráin byggja á samstarfi við fjölmarga, meðal annars Listaháskóla Íslands, Nordic Built Cities, Reykjavíkurborg og Skipulagsstofnun.