Það vakti athygli þegar spurðist út í byrjun viku að Costco myndi bjóða bensínlítrann á 30 krónum lægra verði en almennt býðst. Forstjórar N1 og Skeljungs hafa sagt að þeir ætli ekki að keppa við Costco í verði. Gestur segir Elko hins vegar ætla að verða samkeppnishæfa verslun á raftækjamarkaði.
Fréttablaðið skoðaði handahófskennt vöruverð í Costco og bar saman við aðrar verslanir. Þar kom til dæmis í ljós að Bose Soundlink Bluetooth hátalari kostaði í gær 21.499 krónur í Costco, en í Elko 19.995 krónur. Verðið á Philips 55" smart sjónvarpi er 99.999 krónur í Costco en verð á sambærilegri vöru var 94.995 í Elko.
Gestur segist hafa fylgst vel með aðdragandanum að opnun Costco en segir þróun verðs á þessum tveimur vörum í Elko megi skýra með fleiri þáttum. „Það hefur verið verðhjöðnun í raftækjum í að ég held tvö ár,“ segir hann. Þá sé eðli raftækjasölu að þegar nýjar línur komi inn á markaðinn lækki verð á þeim sem eldri eru.
Fyrir stuttu hafi 42" sjónvarpstækin kostað 5-700 þúsund kall. Nú kosti þau innan við 100 þúsund krónur. „Nýjustu módelin eru á 300 þúsund kall og upp í 6-700 þúsund krónur,“ segir hann.
En Gestur segir að Elko geti hagnast á opnun Costco, sem sé til marks um að Ísland sé ekki einangruð eyja. Hann geti farið með þau skilaboð til erlendra birgja. „Í einhverjum tilfellum hefur okkur tekist að ná í betri verð. Það skýrir að hluta það sem hefur verið að gerast í okkar verðlagningu.“
Sé horft til matvöru, var Costco í flestum tilfellum með lægra verð en Bónus í þeim vöruflokkum sem skoðaðir voru af handahófi. Hins vegar þarf í mörgum tilfellum að kaupa vöruna í miklu magni í Costco en verðið í Bónus miðast í flestum tilfellum við að hún sé keypt í stykkjatali.
Þá vakti athygli að í verslun Costco fæst fatnaður í vinsælum merkjum á lægra verði en víða þekkist. Til dæmis fást þar Levi’s 501 gallabuxur á karla á 6.399 krónur, en þær kosta 11.990 krónur í Levi’s búðinni í Kringlunni.
