Jasmín Erla Ingadóttir skoraði markið sitt á þriðju mínútu í uppbótartíma en það skoraði hún beint úr aukaspyrnu. Bríet Bragadóttir, dómari leiksins, bætti við þremur mínútum og flautaði til leiksloka skömmu eftir að Haukaliðið byrjaði aftur á miðju.
Haukakonur voru því aðeins nokkrum sekúndum frá því að vinna sinn fyrsta sigur í sumar og jafnframt þann fyrsta í efstu deild frá því í september 2010.
Fylkisliðið átti samt skilið að fá eitthvað út úr þessum leik því liðið sótti stíft og oft skall hurð nærri hælum upp við mark Haukaliðsins.
Marjani Hing-Glover kom Haukum í 1-0 í fyrri hálfleik annan leikinn í röð en í síðasta leik náðu Blikar að skora þrjú mörk í seinni hálfleik og tryggja sér sigurinn.
Mark Marjani Hing-Glover kom á átjándu mínútu leiksins eftir sprett hjá Heiðu Rakel Guðmundsdóttur í gegnum vörn Fylkiskvenna.
Að þessu sinni voru Haukakonur yfir í rúmar 70 mínútur eða þar til að Jasmín Erla steig fram og skoraði úr aukaspyrnunni.
Andri Marinó Karlsson tók myndir fyrir Vísis og Fréttablaðið í kvöld og má sjá nokkrar góðar hér fyrir neðan.







