Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fjölnir - Stjarnan 1-3 | Stjörnusigur í Grafarvoginum

Elías Orri Njarðarson skrifar
Stjörnumenn eru með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar.
Stjörnumenn eru með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar. Vísir/Eyþór
Fínn sigur Stjörnumanna á daufum Fjölnismönnum í Grafarvogi í kvöld. Guðjón Baldvinsson kom Stjörnunni á bragðið með fínu marki strax eftir rúmlegar þriggja mínútna leik eftir sofandahátt í vörn Fjölnis. Hólmbert Aron Friðjónsson bætti síðan við tveimur mörkum í seinni hálfleik og Marcus Solberg náði að klóra í bakkann fyrir Fjölni þegar það voru 15 mínútur eftir af leiknum.

Stjörnumenn voru mikið betri meirihlutann af leiknum, þeir börðust vel og spiluðu fínan fótbolta. Leikmenn Fjölnis hljóta að vera mjög ósáttir við eigin frammistöðu hér í kvöld og vilja bæta upp fyrir töpuð stig í næsta leik.

Stjörnumenn fengu fín færi í leiknum og settu boltann í markið en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Leikmenn Fjölnis lifnuðu við eftir markið frá Marcusi Solberg og áttu fín færi en Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, varði vel þegar að á því þurfti.



Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn byrjuðu þennan leik af krafti og má segja að leikmenn Fjölnis væri ekki mættir til leiks á upphafsmínútunum enda skoraði Guðjón Baldvinsson laglegt mark þegar rúmar 3 mínútur voru liðnar af leiknum.

Leikmenn Stjörnunnar pressuðu mikið og voru duglegir í varnarvinnunni og skoruðu svo þrjú mörk sem er mjög jákvætt.

Þessir stóðu upp úr:

Jósef Kristinn Jósefsson  átti frábæran leik í kvöld. Hann var hættulegur vinstra megin í sókninni og sinnti varnarvinnunni mjög vel. Jósef var með þrjár stoðsendingar í kvöld og skapaði mikinn usla með fínum fyrirgjöfum.

Hólmbert Aron Friðjónsson með tvö flott mörk í þessum leik. Hann notaði hæð sína og styrk til þess að vinna háa bolta sem komu inn á teiginn og kláraði færin sín mjög vel. Varnarmenn Fjölnis áttu erfitt með að eiga við Hólmbert sem er kominn með 4 mörk núna í sumar.

Guðjón Baldvinsson skoraði laglegt mark þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum. Hann hleypur endalaust og er ótrúlega duglegur. Hann vann stanslaust í leiknum og býr til mikinn usla með hraða sínum og áræðni. Flottur leikur hjá honum í kvöld.



Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá Fjölnismönnum að koma sér í gang og í takt við leikinn. Eftir að hafa lent 3-0 undir fór eitthvað að gerast hjá Fjölnismönnum og þeir komu sér í nokkur ágætis færi og náðu að lauma inn marki seint í seinni hálfleiknum.



Hvað gerist næst?

Næsti leikur Fjölnismanna er í bikarnum á móti ÍBV á Hásteinsvelli. Í deildinni eiga þeir næst leik í Fossvoginum þann 5.júní n.k. á móti Víking.

Stjörnumenn eiga erfiðan leik fyrir höndum þar sem þeir fara í Kaplakrika og mæta þar sterku liði FH.



Einkunnir leikmanna liðanna:

Fjölnir

Þórður Ingason 4

Mario Tadejevic 4

Ivica Dzolan 4

Igor Taskovic 3

Bojan Stefán Lubicic 3

Ægir Jarl Jónasson 4

Birnir Snær Ingason 3

Marcus Solberg 5

Torfi Tímoteus Gunnarsson 4

Hans Viktor Guðmundsson 4

Varamenn:

Þórir Guðjónsson 5

Ingimundur Níels Óskarsson 4

Gunnar Már Guðmundsson 4

Stjarnan

Haraldur Björnsson 7

Brynjar Gauti Guðjónsson 7

Jósef Kristinn Jósefsson 9  - Maður leiksins

Jóhann Laxdal 7

Guðjón Baldvinsson 8

Baldur Sigurðsson 7

Daníel Laxdal 7

Hilmar Árni Halldórsson 7

Hólmbert Aron Friðónsson 8

Eyjólfur Héðinsson 7

Alex Þór Hauksson 7

Varamenn:

Ólafur Karl Finsen -

Hörður Árnason -

Rúnar Páll: Sýnum styrk okkar með að skora hér þrjú mörk á erfiðum útivelli

Rúnar Páll Sigmundsson var nokkuð ánægður með sigur sinna manna á Fjölni. „Mjög flott þrjú stig en spilamennskan var ekkert frábær í dag en við kláruðum þrjú stig og þeir eiga hrós skilið fyrir það drengirnir,“ sagði Rúnar Páll.

Stjörnumenn eru komnir með 15 mörk í 5 leikjum í sumar og framherjar þeirra, Hólmbert og Guðjón Baldvinsson eru komnir með 4 mörk hvor.

„Ég er hrikalega ánægður með það! Það er ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að þessir strákar séu að skora mörk og við skorum mikið af mörkum í leikjunum. Við sýnum styrk okkar með að skora hér þrjú mörk á erfiðum útivelli þar sem við höfum átt erfitt með að landa sigrum hér síðustu ár,“ sagði Rúnar Páll.

Þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var mark dæmt af Stjörnumönnum eftir að Baldur Sigurðsson hafði verið togaður niður rétt fyrir utan teig en náði að pota boltanum áfram á Guðjón Baldvinsson sem skoraði en var rangstæður. Liðsmenn Stjörnunnar voru ósáttir við þennan dóm.

„Við áttum að fá fríspark þarna áður en að Baldur rennir honum áfram á Guðjón sem var rangstæður, þetta var náttúrulega brot á Baldri þarna þegar hann rennir sér,“ sagði Rúnar Páll.



Hólmbert: Mjög ánægður með strákanna

Hólmbert Aron Friðjónsson átti flottan leik fyrir Stjörnumenn í kvöld. Hann var ánægður með sigur liðsins og glaður með að hafa náð að skora tvö mörk í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með sigurinn, þetta var baráttusigur á erfiðum útivelli og ég er bara mjög ánægður með strákanna,“ sagði Hólmbert Aron.

Fjölnismenn áttu dapran leik í kvöld en þeir unnu FH-inga á útivelli í síðustu umferð. „Þetta var hörkuleikur og við bjuggumst við þeim svona, þetta er hörkulið og þeir geta unnið alla í þessari deild. Við gerðum hinsvegar vel vorum fastir fyrir og þéttir,“ sagði Hólmbert Aron.

Hólmbert er kominn með fjögur mörk í sumar og ætlar sér að bæta meira í.

„Já maður reynir það, þetta kemur vonandi eitt mark í einu en það sem skiptir máli eru þrjú stig,“ sagði Hólmbert.



Ágúst Gylfason: Mikil karlmennska í þessu liði

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis var vonsvikinn með leik sinna manna hér í kvöld.

„Við vissum alveg hverju við vorum að fara að mæta hér í kvöld. Þetta er gífurlega sterkt lið og mikil karlmennska í þessu liði og við mætum bara ekki til leiks með það hugarfar. Þeir voru bara miklu meira tilbúnir til þess að gefa allt í þetta en við vorum það ekki,“ sagði Ágúst Gylfason.

Leikmenn Fjölnis voru mjög daufir meirihlutann af leiknum og það þurfti að fá á sig þrjú mörk til þess að vakna til lífsins. Ágúst gerði þrjár breytingar í leiknum þegar Þórir Guðjónsson, Gunnar Már Guðmundsson og Ingimundur Níels Óskarsson komu inn á í seinni hálfleik.

„Við settum inn þrjá karlmenn inn í liðið sem voru tilbúnir til þess að mæta þeim og leikurinn snerist kannski aðeins við og við fengum allavega mark en kannski ekki mikið af færum það var erfitt að brjóta niður Stjörnumenn, þetta er alvöru lið og með alvöru karlmenn inn á vellinum,“ sagði Ágúst.

Fjölnir náðu í góð þrjú stig í síðustu umferð á erfiðum útivelli á móti FH. Fjölnismenn hefðu viljað ná að halda áfram á sigurgöngu en það þýðir ekkert að gefast upp eftir einn leik.

„Við höldum bara áfram, náðum frábærum sigri á móti FH. Það var mjög flottur leikur en þessi leikur hér í kvöld var allt öðruvísi. Þetta var miklu meiri ,,physical” leikur hér í kvöld og það var erfitt fyrir okkar stráka að mæta þessu og við guggnuðum á því,“ sagði Ágúst.

Næsti leikur Fjölnis er í bikarnum á móti ÍBV á útivelli og Ágúst er vongóður um góð úrslit úr þeim leik. „Við förum til Eyja í bikarnum og við ætlum okkur að komast þar áfram að sjálfsögðu,“ sagði Ágúst.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira