Dries Mertens, næstmarkahæsti leikmaður ítölsku úrvalsdeildarinnar , hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Napoli.
Mertens hefur blómstrað í stöðu fremsta manns hjá Napoli á tímabilinu og fyllt skarðið sem Gonzalo Higuaín skildi eftir sig.
Þessi þrítugi Belgi hefur skorað 27 mörk og gefið níu stoðsendingar í 34 deildarleikjum í vetur.
Mertens er með klásúlu um riftunarverð í nýja samningnum. Hún er þó þeim takmörkunum háð að aðeins kínversk félög geta virkjað hana.
Napoli mætir Sampdoria í lokaumferð ítölsku úrvalsdeildarinnar á morgun. Mertens og félagar eiga möguleika á að ná 2. sætinu með því að ná betri úrslitum en Roma sem fær Genoa í heimsókn.
Sérkennileg klásúla í nýjum samningi Mertens
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
