Selfyssingar skutust á topp Inkasso-deildarinnar með sterkum útisigri á Þórsurum, 1-4, í dag.
Selfoss vann 1-0 sigur á ÍR í 1. umferðinni og er því með fullt hús stiga á toppi Inkasso-deildarinnar. Fylkir er einnig með fullt hús stiga en aðeins lakari markatölu en Selfoss.
Selfyssingar byrjuðu leikinn í dag frábærlega en strax eftir tvær mínútur var staðan orðin 0-1. Sindri Pálmason skoraði markið.
James Mack jók muninn í 0-2 á 38. mínútu en fjórum mínútum síðar minnkaði Jóhann Helgi Hannesson muninn fyrir Þór.
Reynsluboltinn Andy Pew kom Selfossi í 1-3 á 55. mínútu og Haukur Ingi Gunnarsson skoraði svo fjórða mark liðsins á lokamínútunni.
Í uppbótartíma fékk Þór vítaspyrnu eftir að Pew varði skot Jóhanns Helga með hendi á línu. Gunnar Örvar Stefánsson fór á punktinn en skaut í stöng. Það var síðasta spyrna leiksins.
Þórsarar eru stigalausir á botni deildarinnar með markatöluna 2-7.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
