Ríkarður Ríkarðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Landsvirkjunar Power ehf. og tekur við rekstri félagsins í byrjun júlí.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun, en Landsvirkjun Power ehf. er dótturfélag að fullu í eigu Landsvirkjunar. Félagið hefur um tíu ára skeið veitt ráðgjöf erlendis vegna þróunar, byggingar og reksturs vatnsafls- og jarðvarmavirkjana.
„Ráðgjafarþjónusta félagsins byggir á víðtækri þekkingu og reynslu starfsmanna Landsvirkjunar. Starfsmenn félagsins eru átta, auk samnýttra starfskrafta Landsvirkjunar, og á það í góðu samstarfi við íslensk verkfræðifyrirtæki.
Ríkarður hefur unnið hjá Landsvirkjun frá árinu 2011 og síðustu fimm ár gegnt stöðu forstöðumanns viðskiptaþróunar og sölu hjá fyrirtækinu. Ríkarður var stjórnendaráðgjafi hjá McKinsey & Company árin 2009-2011. Árin 2006-2009 starfaði Ríkarður sem forstöðumaður og ráðgjafi hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum og 2002-2006 fyrir bandarískt hátæknifyrirtæki í Kísildal og stýrði evrópskri viðskiptaþróun þess í London.
Ríkarður er verkfræðingur með M.Sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum og lýkur PED námi í stjórnun í sumar við IMD háskólann í Sviss. Sambýliskona Ríkarðs er Fríður Guðmundsdóttir og eiga þau tvö börn,“ segir í tilkynningunni.
