Bíl var ekið á fjölbýlishús við Vættaborgir í Grafarvogi á áttunda tímanum í kvöld. Bíllinn skemmdist talsvert en ekki er talið að neinn hafi sakað.
Sjónarvottur segir í samtali við fréttastofu að um hafi verið að ræða próflausa unglinga sem hafi misst stjórn á bílnum með fyrrnefndum afleiðingum. Þeir hafi gjöreyðilagt grindverk sem þeir hafi ekið í gegnum og að mildi þyki að ekki hafi farið verr, enda sé umrædd gata nokkuð fjölfarin.
Ekki náðist í lögreglu vegna málsins.

