„Verkefnið sem bíður okkar, mínir kæru samborgarar, er gríðarstórt og það hefst á morgun. Það krefst þess að við stöndum vörð um lýðræðislegan þrótt, sprautum nýju lífi í efnahaginn, byggjum upp nýjar varnir gagnvart heiminum sem umlykur okkur og gefum öllum pláss til að reisa Evrópu okkar allra upp á nýtt og tryggja öryggi allra Frakka,“ sagði Macron í ræðu sinni.

„Næstu fimm árin mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að þeir sem kusu Marine Le Pen finni sig aldrei aftur knúna til að kjósa öfgaöfl.“
Þegar Macron sagðist eiga fjölskyldu sinni sigurinn að þakka hrópaði mannfjöldinn nafn eiginkonu hans, Brigitte. Hún mætti þá manni sínum tárvot uppi á sviði. Hjónaband þeirra vakti mikla athygli í kosningabaráttunni en Brigitte er 24 árum eldri en hinn nýkjörni forseti.
Macron sagði enn fremur að verkefnið sem hann ætti fyrir höndum yrði erfitt. „Við munum ekki láta undan óttanum,“ sagði Macron og kallaði um leið eftir samheldni þjóðarinnar og Frakklands alls.
„Ég mun þjóna ykkur með ást,“ sagði Emmanuel Macron í lok sigurræðunnar. „Lengi lifi lýðveldið, lengi lifi Frakkland.“