Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, er bjartsýnn á að íslenska landsliðið verði í næstu útgáfu tölvuleiksins vinsæla FIFA 18 sem kemur út í haust.
Þetta kemur fram í viðtali við Guðna í Viðskiptablaðinu en KSÍ fékk boð um að vera í FIFA 17 sem Geir Þorsteinsson, þáverandi formaður sambandsins, hafnaði.
Sú ákvörðun Geirs vakti upp mikla reiði hjá fótboltaáhugamönnum en tilboð EA Sports, framleiðanda FIFA, var undir tveimur milljónum króna sem Geir fannst of lág upphæð.
FIFA-spilarar á Íslandi gætu fagnað á næstu vikum eða mánuðum því Guðni segist vera á fullu í þessum málum og er bjartsýnn á að strákarnir okkar verði í næstu útgáfu leiksins.
„Ég er að vinna í þessum málum einmitt þessa stundina og ég er bjartsýnn á að við náum að segja góðar fréttir hvað þetta varðar von bráðar,“ segir Guðni Bergsson við Viðskiptablaðið.
