Hildigunnur Birgisdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og hefur sýnt í Listasafni Reykjavíkur, Kling & Bang, Nýlistasafninu og Annaellegallery í Stokkhólmi. Hún hefur skapað sér sérstöðu með smágerðum skúlptúrum, leikgleði og húmor sem þó vekur athygli á alvarlegri málum.

„Fólk þarf að leggja svolítið á sig ef það ætlar að komast að leyndarmálunum. En í raun vil ég ekkert að fólk viti þau, því þau eru bara vandræðaleg,“ útskýrir hún brosandi.
Bendir líka grallaraleg á að sýningin sjáist varla fyrir sýningunni og það má til sanns vegar færa. Það ber til dæmis ekki mikið á agnarsmáum bronshillum inn á milli veggfóðurskreytinga. Þær hillur kveðst Hildigunnur hafa mótað með eigin fingrum.
„Fyrstu hilluna gerði ég ekki í neinum sérstökum tilgangi, hún var bara fyrir eitthvað sem ég vissi ekki hvað yrði. Í öðru tilfelli bjó ég til hillu fyrir skrúfur. Mér fannst það huggulega gert af mér – ég held að skrúfur hafi sjaldan fengið slíka athygli. Bara – tími til kominn!“

„Þessi verk kölluðu á postulín því þau eru afsteypur af fjöldaframleiddum umbúðum, mér fannst við hæfi að setja þau í viðkvæmt og fallegt efni því umbúðir lenda jafnan í ruslinu. Serían fjallar um hringrás okkar, neysluna og umhverfið og verkin heita isk, þau draga nafn sitt alltaf af þeim gjaldmiðli sem í gildi er þar sem þau eru sýnd.“