Rétt ákvörðun Hörður Ægisson skrifar 7. apríl 2017 06:00 Það er áhyggjuefni hversu útbreidd sú skoðun er að það sé æskilegt að ríkið fari með eignarhald á nánast öllu bankakerfinu. Sú fjárhæð sem ríkið er með bundið sem eigið fé í bönkunum, fyrst og fremst í Landsbankanum og Íslandsbanka, nemur ríflega tuttugu prósentum af landsframleiðslu. Þótt mörgum þyki nóg um þá áhættu sem þessi staða leggur á herðar skattgreiðendum – og er algjört einsdæmi á Vesturlöndum – þá tala nú sumir fyrir þvi að stjórnvöld bæti enn í og nýti sér forkaupsrétt og leysi til sín Arion banka. Sem betur fer hefur ríkið enga slíka heimild. Þrátt fyrir að vogunarsjóðirnir sem keyptu Arion banka fari ekki með virkan eignarhlut, að minnsta kosti ekki sem stendur, þá hefur verið kallað eftir því að Fjármálaeftirlitið framkvæmi sem fyrst hæfismat á hinum nýju hluthöfum og að upplýst verði um endanlega eigendur þeirra sjóða sem standa að fjárfestingunni. Þetta eru ekki óeðlilegar kröfur. Meira máli skiptir samt að rýna í fjárfestingastefnu viðkomandi vogunarsjóða heldur en hverjir séu eigendur hlutdeildarskírteina sjóðanna – áhrif þeirra eru lítil sem engin. Á meðan undirbúningur og vinna FME að því að meta hæfi vogunarsjóðanna til að eiga meira en tíu prósenta hlut í bankanum, sem þeir stefna að samhliða því að nýta sér kauprétt síðar á árinu, hafa sjóðirnir fallist á að eignarhlutum þeirra fylgi ekki atkvæðisréttur. Sjóðirnir eru því í reynd áhrifalausir hluthafar á meðan beðið er niðurstöðu þess hæfismats. Þá ætti flestum einnig að vera ljóst, enda þótt Kaupþing hafi ekki stigið fram og sagt það opinberlega, að félagið er óbeint undir þrýstingi að skrá Arion banka á markað áður en langt um líður og þannig losa um allan hlut sinn í bankanum. Að öðrum kosti mun FME fella niður heimild Kaupþings til að fara með virkan eignarhlut í bankanum í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil og Kaupþing þyrfti sjálft að standast slíkt hæfismat. Ólíklegt er að sú niðurstaða yrði jákvæð. Fyrirhugað hlutafjárútboð og tvíhliða skráning bankans – á Íslandi og í Svíþjóð – verður prófsteinn á áhuga erlendra fjárfesta, annarra en þeirra sem eru fyrir hluthafar í Kaupþingi. Sú gríðarmikla aukning sem við sjáum í fjárfestingu erlendra verðbréfasjóða í skráðum hlutabréfum á árinu gefur tilefni til að ætla að slíkur áhugi sé sannarlega fyrir hendi. Þeir fjármunir sem fást við sölu á hlut Kaupþings í útboði fara þá að stórum hluta til íslenska ríkisins. Vel heppnað opið útboð Arion banka gefur ríkinu í framhaldi færi á því að selja 13 prósenta hlut sinn í bankanum á markaði og mun jafnframt ryðja brautina fyrir stjórnvöld til að hefja löngu tímabært söluferli á hlut sínum í Íslandsbanka og Landsbankanum. Ólíkt því sem má stundum skilja af umræðunni er það sem nú er að gerast með sölu Kaupþings á stórum hlut í Arion banka nákvæmlega í samræmi við þau stöðugleikaskilyrði sem stjórnvöld settu kröfuhöfum árið 2015. Í stað þess að bankinn yrði afhentur ríkinu endurgjaldslaust, sem stóð til boða um tíma, var ákveðið að skynsamlegra væri að fela kröfuhöfum það verkefni – og kostnaðinn sem því fylgir – að koma bankanum í verð innan ákveðins tímaramma en um leið tryggja að söluandvirðið færi nánast allt til ríkissjóðs. Það var rétt ákvörðun.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hörður Ægisson Mest lesið Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Konungar markaðarins Eiríkur Ingi Magnússon Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Það er áhyggjuefni hversu útbreidd sú skoðun er að það sé æskilegt að ríkið fari með eignarhald á nánast öllu bankakerfinu. Sú fjárhæð sem ríkið er með bundið sem eigið fé í bönkunum, fyrst og fremst í Landsbankanum og Íslandsbanka, nemur ríflega tuttugu prósentum af landsframleiðslu. Þótt mörgum þyki nóg um þá áhættu sem þessi staða leggur á herðar skattgreiðendum – og er algjört einsdæmi á Vesturlöndum – þá tala nú sumir fyrir þvi að stjórnvöld bæti enn í og nýti sér forkaupsrétt og leysi til sín Arion banka. Sem betur fer hefur ríkið enga slíka heimild. Þrátt fyrir að vogunarsjóðirnir sem keyptu Arion banka fari ekki með virkan eignarhlut, að minnsta kosti ekki sem stendur, þá hefur verið kallað eftir því að Fjármálaeftirlitið framkvæmi sem fyrst hæfismat á hinum nýju hluthöfum og að upplýst verði um endanlega eigendur þeirra sjóða sem standa að fjárfestingunni. Þetta eru ekki óeðlilegar kröfur. Meira máli skiptir samt að rýna í fjárfestingastefnu viðkomandi vogunarsjóða heldur en hverjir séu eigendur hlutdeildarskírteina sjóðanna – áhrif þeirra eru lítil sem engin. Á meðan undirbúningur og vinna FME að því að meta hæfi vogunarsjóðanna til að eiga meira en tíu prósenta hlut í bankanum, sem þeir stefna að samhliða því að nýta sér kauprétt síðar á árinu, hafa sjóðirnir fallist á að eignarhlutum þeirra fylgi ekki atkvæðisréttur. Sjóðirnir eru því í reynd áhrifalausir hluthafar á meðan beðið er niðurstöðu þess hæfismats. Þá ætti flestum einnig að vera ljóst, enda þótt Kaupþing hafi ekki stigið fram og sagt það opinberlega, að félagið er óbeint undir þrýstingi að skrá Arion banka á markað áður en langt um líður og þannig losa um allan hlut sinn í bankanum. Að öðrum kosti mun FME fella niður heimild Kaupþings til að fara með virkan eignarhlut í bankanum í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil og Kaupþing þyrfti sjálft að standast slíkt hæfismat. Ólíklegt er að sú niðurstaða yrði jákvæð. Fyrirhugað hlutafjárútboð og tvíhliða skráning bankans – á Íslandi og í Svíþjóð – verður prófsteinn á áhuga erlendra fjárfesta, annarra en þeirra sem eru fyrir hluthafar í Kaupþingi. Sú gríðarmikla aukning sem við sjáum í fjárfestingu erlendra verðbréfasjóða í skráðum hlutabréfum á árinu gefur tilefni til að ætla að slíkur áhugi sé sannarlega fyrir hendi. Þeir fjármunir sem fást við sölu á hlut Kaupþings í útboði fara þá að stórum hluta til íslenska ríkisins. Vel heppnað opið útboð Arion banka gefur ríkinu í framhaldi færi á því að selja 13 prósenta hlut sinn í bankanum á markaði og mun jafnframt ryðja brautina fyrir stjórnvöld til að hefja löngu tímabært söluferli á hlut sínum í Íslandsbanka og Landsbankanum. Ólíkt því sem má stundum skilja af umræðunni er það sem nú er að gerast með sölu Kaupþings á stórum hlut í Arion banka nákvæmlega í samræmi við þau stöðugleikaskilyrði sem stjórnvöld settu kröfuhöfum árið 2015. Í stað þess að bankinn yrði afhentur ríkinu endurgjaldslaust, sem stóð til boða um tíma, var ákveðið að skynsamlegra væri að fela kröfuhöfum það verkefni – og kostnaðinn sem því fylgir – að koma bankanum í verð innan ákveðins tímaramma en um leið tryggja að söluandvirðið færi nánast allt til ríkissjóðs. Það var rétt ákvörðun.Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu.