Rannsókn lögreglu hefur meðal annars beinst að því hvaða ásetningur lá að baki þess að Birnu var ráðinn bani. Grímur Grímsson, sem farið hefur fyrir rannsókninni, staðfestir að vegna þess hafi meðal annars verið rannsakað hvort Birna hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi, eða tilraun til kynferðisofbeldis, í rauðu Kia Rio bifreiðinni áður en hún var myrt. Grímur vill þó ekki gefa upp hverjar niðurstöður lögreglu séu af þeim hluta rannsóknarinnar. Lögregla hefur ekki viljað gefa upp nein nákvæmnisatriði í rannsókninni eftir að mál tóku að skýrast, búið var að handtaka hinn grunaða og lík Birnu hafði fundist. Þó hefur komið fram að lífsýni tengi Birnu og skipverjann saman auk þess sem fullvíst er að Birna var farþegi í bíl hans. Talið er að maðurinn hafi banað Birnu á milli sex og sjö í bílnum við Hafnarfjarðarhöfn.

Annar skipverji, sem sat í gæsluvarðhald í tvær vikur, grunaður um aðild að málinu hefur enn réttarstöðu grunaðs manns þrátt fyrir að hafa verið látinn laus úr haldi og sé kominn til Grænlands. Hann er ekki grunaður um að vera valdur að dauða Birnu en Grímur segir að héraðssaksóknari komi til með að taka ákvörðun um hvort hann verði ákærður fyrir aðild að hvarfi Birnu eða þau atriði sem snúi að honum verði látin niður falla. Lögreglan hefur ekki átt í neinum samskiptum við manninn síðan hann fór aftur heim til Grænlands og til að mynda ekki stofnað til samvinnu við grænlensk lögregluyfirvöld um frekari yfirheyrslur.
Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrr i mánuðinum er Thomas vistaður í fangelsinu á Hólmsheiði. Þrátt fyrir að hann sé ekki lengur í einangrun dvelur hann einn í álmu og hittir ekki aðra fanga. Hann hefur þó aðgang að verslun, líkamsrækt og bókasafni.
Fréttin birtist fyrstur í Fréttablaðinu