Handbolti

Guðmundur hættur með danska landsliðið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur fagnar ÓL-gullinu.
Guðmundur fagnar ÓL-gullinu. vísir/getty
Danska handknattleikssambandið tilkynnti í dag að Guðmundur Guðmundsson væri hættur að þjálfa danska landsliðið.

Samningur Guðmundar við danska sambandið rennur út næsta sumar og stóð til að Guðmundur myndi hætta þá. Nú er aftur á móti ljóst að hann hefur stýrt sínum síðasta leik fyrir Dani.

Búið var að ráða Nikolaj Jacobsen sem arftaka Guðmundar og hann tekur strax við liðinu. Hann mun stýra liðinu í leikjum í undankeppni EM í maí og júní.

„Ég held að það sé best fyrir liðið og mig sjálfan að ég stígi niður. Nikolaj fær því fínan tíma til að kynnast liðinu,“ segir Guðmundur en hann gerði liðið að Ólympíumeisturum og vann 13 af síðustu 14 leikjum sínum með liðið. Liðið féll þó snemma úr keppni á HM í janúar og þá varð fjandinn laus.

Danska handknattleikssambandið þakkaði Guðmundi fyrir góð störf.

„Það var þegar ákveðið að Guðmundur hætti og þegar í ljós kom að Nikolaj gat byrjað fyrr en ella þá var ákveðið að Guðmundur myndi stíga til hliðar,“ segir í yfirlýsingu danska sambandsins.

„Guðmundur mun alltaf eiga sérstakan sess í danskri handboltasögu. Hans verður alltaf minnst fyrir að hafa náð besta árangri í sögu danska handboltans. Við þökkum honum fyrir hans framlag og óskum honum alls hins besta í framtíðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×