Gert er ráð fyrir uppbyggingu íbúðahúsnæðis og innviða fyrir allt að 12.600 manns þegar hverfi við Elliðaárvog og á Ártúnshöfða verður að fullu endurgert en fjöldi íbúða gæti orðið á bilinu 5.100 til 5.600 talsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en kynningarfundur um skipulag og uppbyggingu Ártúnshöfða og Elliðaárvogs verður haldinn klukkan 17 á morgun í Ráðhúsi Reykjavíkur og er fundurinn opinn öllum.
Á vef Reykjavíkurborgar er haft eftir Birni Guðbrandssyni hjá Arkís að uppbygging þessa hverfis „búi yfir fjölmörgum eiginleikum vistvænnar byggðar, enda hafi áherslur í hönnun verið að skapa vistvænt borgarhverfi með fólk í fyrirrúmi. Rammaskipulag fyrir svæðið var unnið í samstarfi Arkís, Landslags og Verkís.
„Að stærstum hluta er um að ræða land sem þegar hefur verið raskað; athafnasvæði sem gengur í gegnum endurnýjun og umbreytist í blandaða byggð,“ segir Björn, en hann er meðal þeirra sem segja frá hverfinu á kynningarfundinum á morgun. Hann segir að lögð hafi verið áhersla á að skapa hverfi sem er þétt og fjölbreytt, bjóði upp á þjónustu og atvinnumöguleika innan hverfis og er tengt hágæða almenningssamgöngukerfi. Uppbyggingin mun tengjast nýrri borgarlínu á samgönguás frá vestri til austurs.
Björn segir að hverfið njóti einstakra umhverfisgæða og tenginga við útivistarstíga. Ennfremur gerir skipulagið ráð fyrir fjölbreyttum borgarrýmum og útivistarsvæðum sem eru tengd neti göngu- og hjólastíga.“
Nýtt hverfi rís á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog

Tengdar fréttir

Borgarmynd Reykjavíkur breytist umtalsvert gangi áætlanir eftir
Reykjavíkurborg tekur stakkaskiptum miðað við áætlanir næstu ára.