Veitingastaðurinn DILL fékk í dag eina Michelin stjörnu. Um er að ræða eina stærstu viðurkenningu sem veitingastaðir um allan heim keppast um að fá, en verðlaunin voru afhent í Stokkhólmi í morgun.
Ragnar Eiríksson, yfirkokkur staðarins, tók við verðlaununum í morgun þegar nokkrir veitingastaðir á Norðurlöndum voru heiðraðir með stjörnu.
„Þetta er frábært. Ég er mjög stoltur og auðmjúkur og þetta hefur mikla þýðingu fyrir Ísland,“ sagði Ragnar við verðlaunaafhendinguna.
DILL hefur hlotið margs konar viðurkenningar og nokkrum sinnum verið valinn besti veitingastaður Íslands á listum á borð við White Guide Nordic, Nordic Prize og víðar.
Ragnar tók við stöðu yfirkokks í árslok 2015 þegar annar stofnenda staðarins, Gunnar Karl Gíslason, flutti af landi brott til að standsetja veitingastaðinn Agern á Grand Central Terminal í New York í samstarfi við Claus Meyer. Agern fékk sína Michelin stjörnu stein á síðasta ári.
Verðlaunaafhendinguna má sjá hér fyrir neðan, en Ragnar tekur við viðurkenningunni þegar um 38 mínútur og 20 sekúndur eru liðnar af myndskeiðinu.