Skipverjinn af grænlenska togaranum Polar Nanoq sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur hefur ekkert verið yfirheyrður frá því á miðvikudaginn í seinustu viku. Þetta segir Einar Guðberg Jónsson, rannsóknarlögreglumaður, í samtali við Vísi.
Aðspurður hvers vegna maðurinn hefur ekki verið yfirheyrður segir hann lögregluna ekki hafa talið þörf á því. Þá segir hann ekkert hafa verið ákveðið varðandi það hvenær maðurinn verði næst yfirheyrður en hann var á fimmtudaginn í liðinni viku úrskurðaður í áframhaldandi tveggja vikna gæsluvarðhald og einangrun.
Maðurinn hefur nú alls verið í varðhaldi og einangrun í fimm vikur vegna málsins en auk hans er kollegi hans af Polar Nanoq einnig með réttarstöðu sakbornings. Hann var í haldi í tvær vikur en var svo látinn laus. Ekki var farið fram á farbann yfir honum og er hann því nú kominn heim til sín á Grænlandi.
Að sögn Einars bíður lögreglan enn eftir niðurstöðum úr fleiri lífsýnum sem send voru erlendis til rannsóknar en niðurstöður komu fyrr í þessari viku úr nokkrum þeirra. Lögreglan hefur hins vegar ekkert viljað tjá sig um hvað niðurstöðurnar sýna.
Þá bíður lögreglan enn eftir lokaskýrslu krufningar sem gerð var á líki Birnu en gert er ráð fyrir því að rannsókn ljúki eftir um þrjár vikur.
Skipverjinn ekki verið yfirheyrður í rúma viku

Tengdar fréttir

Niðurstöður úr rannsóknum á lífsýnum farnar að berast lögreglunni
Niðurstöður úr rannsóknum á lífsýnum sem send voru erlendis vegna rannsóknarinnar á máli Birnu Brjánsdóttur eru teknar að berast lögreglu hér á landi. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni, í samtali við Vísi.

Einhverjir dagar í að skipverjinn verði yfirheyrður á ný
Maðurinn er grunaður um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur.

Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldið yfir skipverjanum
Hæstiréttur staðfesti í dag tveggja vikna gæsluvarðhald yfir skipverjanum sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur.