Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir skipverjanum af grænlenska togaranum Polar Nanoq sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur. Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins, í samtali við Vísi.
Lík Birnu fannst í fjörunni við Selvogsvita þann 22. janúar en hennar hafði þá verið saknað í átta daga þegar hún fannst.
Maðurinn sem situr í haldi hefur verið í einangrun á Litla-Hrauni í fjórar vikur þegar gæsluvarðhaldið yfir honum rennur út klukkan 16 á morgun. Ekki liggur fyrir klukkan hvað maðurinn verður leiddur fyrir dómara á morgun en það verður, eðli málsins samkvæmt, að gerast fyrir klukkan fjögur.
Maðurinn var yfirheyrður í morgun. Sem fyrr liggur ekki fyrir játning í málinu en Grímur vill að öðru leyti ekki fara út í það sem fram hefur komið í yfirheyrslum.
Lögreglan bíður enn eftir niðurstöðum úr rannsóknum lífsýna sem send voru erlendis sem og lokaniðurstöðu krufningar á líki Birnu.
Krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir skipverjanum

Tengdar fréttir

Frekari ákvarðanir teknar að lokinni yfirheyrslu
Maðurinn yfirheyrður í dag.

Skipverjinn á Grænlandi fer til sálfræðings til að vinna úr áfallinu
Lögmaður skipverjans segir að fjölskylda hans og kærasta hafi aldrei efast um sakleysi hans.