Vitað er að fjöldi bíla er búinn myndavélabúnaði en athygli vekur að lögreglan biður aðeins um myndefni sem tekið er upp laugardagsmorguninn 14. janúar á milli klukkan 7 og 11:30. Þá biðlar lögreglan jafnframt til ökumanna sem hafa verið á ferð á mjög stóru svæði, það er á Reykjanesi, Suðurlandi, að Selfossi og Vesturlandi, upp í Borgarfjörð.
Vantar upplýsingar um ferðir bílsins
Birna sást síðast í eftirlitsmyndavélum við Laugaveg 31 klukkan 05:25 og hefur ekkert til hennar spurst síðan.
Þessar tímasetningar eru nýjar málinu, milli 7 og 11:30, er bíllinn þá ekki á hafnarsvæðinu á þessum tíma?
„Nei, hann er ekki á hafnarsvæðinu á þessum tíma,“ segir Grímur.
Aðspurður hvort bíllinn sjáist þá koma aftur á hafnarsvæðið klukkan 11:30 segir hann:
„Ég vil fara varlega í það að fara mikið í það hvar við sjáum bílinn en þetta er eitthvað sem okkur vantar, okkur vantar ferðir hans á þessum tíma.“
Grímur segir það alveg mögulegt að bílnum hafi verið ekið út úr bænum.
„Þannig að það skiptir líka máli að það er ekki bara verið að óska eftir aðstoð frá fólki í Reykjavík og Hafnarfirði.“
Að sögn Gríms er búið að kortleggja ferðir bílsins á höfuðborgarsvæðinu að því leyti að hann er við Laugaveg 31 klukkan 05:25. Honum er síðan ekið niður Ingólfsstræti þar sem hann hverfur úr myndavélum norðan Hverfisgötu. Talið er að honum sé síðan ekið inn á Sæbraut og þaðan áfram Reykjanesbraut en þetta er byggt á farsímagögnum.
Þá er talið að bíllinn hafi verið við Flatahraun klukkan 05:50 þegar sími Birnu kemur inn á mastur þar og svo við áhaldahús Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar þar sem rauður bíll næst á mynd klukkan 05:53. Lögregluna grunar að það sé sami bíllinn og leggur af stað frá Laugavegi. Um klukkan 06:10 kemur bíllinn svo inn á hafnarsvæðið við Hafnarfjarðarhöfn.
Hinir grunuðu á þrítugsaldri
Annar maðurinn var yfirheyrður í morgun og hinn verður yfirheyrður núna eftir hádegi. Aðspurður hvernig yfirheyrslur hafi gengið í morgun segir Grímur þær hafa gengið ágætlega en hann geti ekki tjáð sig um það sem þar hafi komið fram. Þó liggur fyrir að mennirnir neita enn sök.
Þeir eru báðir á þrítugsaldri og hafa ekki komið við sögu lögreglu áður hér á landi en verið er að afla upplýsinga um hvort þeir eigi einhvern sakaferil að baki annars staðar. Þeir hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald en lögreglan fór fram á fjögurra vikna varðhald. Ekki liggur fyrir dómur Hæstaréttar varðandi gæsluvarðhaldið en lögreglan kærði úrskurð héraðsdóms þangað.