Ekki er útilokað að mennirnir tveir, sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í gær vegna gruns um aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur, hafi við yfirheyrslur gefið í skyn að hafa hitt hana. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Yfirheyrslur hafa staðið yfir í dag en mennirnir hafa alfarið neitað sök. Í samtali við fréttastofu RÚV svaraði Einar Guðberg Jónsson lögreglufulltrúi spurningu blaðamanns játandi um að mennirnir hefðu hugsanlega gefið það í skyn að hafa hitt hana.
Í kvöldfréttum RÚV sagði Grímur Grímsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, að DNA-rannsókn á lífssýni úr Birnu stæði nú yfir.
Einar Guðberg Jónsson staðfesti í samtali við Vísi að umrætt lífssýni væri blóð sem fannst í rauðri Kia Rio bifreið sem staðfest er að annar sakborninganna var með á leigu.
Í kvöldfréttum RÚV sagði Grímur Grímsson að yfirheyrslur myndu halda áfram fram eftir kvöldi en hlé yrði gert á þeim þar um helgina nema fleiri vísbendingar kæmu í ljós.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent beiðni á allar svæðisstjórnir björgunarsveita á landinu um að leggja til mannskap í umfangsmikla leit að Birnu Brjánsdóttur sem hefst að öllum líkindum á morgun.
Mennirnir útiloka ekki að hafa komist í kynni við Birnu
nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
