Napoli lagði AC Milan 2-1 á útivelli í ítölsku A-deidlinni í fótbolta í kvöld.
Sannkölluð óskabyrjun Napoli gerði útslagið í leiknum. Lorenzo Insigne kom liðinu yfir strax á sjöttu mínútu og þremur mínútum síðar bætti José Callejón öðru marki við.
Juraj Kucka minnkaði muninn fyrir heimamenn átta mínútum fyrir hálfleik en meira var ekki skorað í leiknum.
Napoli náði þar með Roma að stigum í öðru sæti deildarinnar með 44 stig, stigi á eftir Juventus sem leikið hefur tveimur leikjum minna en Napoli og leik minna en Roma.
Milan situr eftir í 5. sæti með 37 stig.
