„Föstudaginn síðasta var ég kallaður suður af lögreglu og var ég kominn kl. 04:00 laugardagsmorgun. Leit byrjaði kl. 09:00. Falleg 20 ára gömul stúlka hafði ekki skilað sér heim í viku,“ skrifar Viktor.
„Rúmlega 600 björgunarsveitarmenn af öllu landinu tóku þátt. Þessi aðgerð varð sú viðfangsmesta sem Landsbjörg hefur staðið fyrir,“ segir Viktor en notast var við tvær þyrlur, tvær flugvélar, flygildi, hunda, bíla og fjórhjól við leitina.
„Eftir erfiða tveggja daga leit í skítugu hrauninu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur tókst okkur það sem að við komum fyrir. Við fundum Birnu.“
Í kjölfar þess að lík Birnu fannst voru margir björgunarsveitarmenn sendir heim en Viktor var einn þeirra sem héldu áfram leit.
„Ég kom heim seint um kvöldið, og það fyrsta sem beið mín var heitt faðmlag frá mömmu. Ég grét í fanginu á henni. Ég grét yfir þeirri staðreynd að ég var sendur á það svæði þar sem vondur maður losaði sig endanlega við Birnu, í von um vísbendingar hvar og hvort möguleg morðvopn hafi verið til staðar.
Þetta tók á andlega sem líkamlega - þó meira andlega.“
Viktor segir að mál Birni hafi kennt Íslendingum að standa saman þegar við verðum fyrir áfalli. „Við erum fjölskylda,“ skrifar hann.
Að lokum ávarpar hann Birnu sjálfa ásamt því að votta fjölskyldu hennar og vinum samúð sína.
„Birna, þú áttir þetta ekki skilið.
Þú áttir það ekki skilið að vera rænd framtíðinni.
Þú áttir ekki skilið að fá aldrei að sjá foreldra þína aftur.
Fyrirgefðu.“