Sport

Federer áfram eftir frábæran slag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roger Federer og Stan Wawrinka í morgun.
Roger Federer og Stan Wawrinka í morgun. Vísir/EPA
Roger Federer er kominn áfram í úrslitaleikinn í einliðaleik karla á opna ástralska meistaramótinu í tennis. Þar stefnir hann að því að vinna sinn átjánda titil á risamóti og þann fyrsta síðan 2012.

Federer vann landa sinn frá Sviss, Stan Wawrinka, í frábærri fimm setta viðureign í morgun, 7-5, 6-3, 1-6, 4-6 og 6-3.

Roger Federer er 35 ára og einn allra sigursælasti tenniskappi allra tíma. En hann hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár, til að mynda vegna meiðsla, og er elsti maðurinn sem kemst í úrslitaleik á risamóti síðan að Ken Rosewall komst í úrslit opna bandaríska árið 1974, þá 39 ára.

Sjá einnig: Systurnar mætast í úrslitunum í Ástralíu

Federer hefur fjórum sinnum unnið mótið í Ástralíu, síðast árið 2010. Hann hefur verið fjarverandi vegna hnémeiðsla undanfarna sex mánuði og kom inn í mótið í sautjánda sæti styrkleikalistans í einliðaleik karla.

Bæði Federer og Wawrinka tóku sér leikhlé í morgun til að fá aðhlynningu vegna meiðsla sinna en náðu þó að klára viðureignina sem tók alls þrjár klukkustundir og fimm mínútur.

Federer vann fyrstu tvö settin í leiknum en gaf svo eftir. Hann náði sér svo aftur á strik og var sterkari á lokakaflanum. Hann mætir annað hvort Rafael Nadal, sem er einnig að koma til baka eftir erfið meiðsli, eða Grigor Dimitrov í úrslitunum á sunnudag.


Tengdar fréttir

Efsta fólk heimslistans bæði úr leik

Andy Murray efsti tenniskarl heims og Angelique Kerber efsta tenniskona heims féllu bæði úr leik á opna ástralska meistaramótinu í tennis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×