Gönguskíðamaðurinn sem féll í sprungu á Vatnajökli nærri Grímsfjalli í hádeginu í dag tókst með aðstoð samferðamanns síns að komast upp úr sprungunni. Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar sem komst þó ekki á svæðið vegna aðstæðna.
Bjart mun hafa verið á slysstaðnum en aðstæður í kring torvelduðu för þyrlunnar sem þurfti frá að hverfa. Þar spilaði líka inn í upplýsingar um að maðurinn væri kominn upp úr sprungunni.
Mennirnir, sem eru erlendir ferðamenn, komust af sjálfsdáðum í skála Jöklarannsóknarfélagsins við Grímsfjall. Björgunarsveitarfólk á bílum og vélsleðum er á leiðinni til móts við mennina.
Sá sem féll í sprunguna mun hafa slasast lítilsháttar og reiknað með því að hann verði fluttur undir læknishendur að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.
Uppfært klukkan 14:46
Tilkynning frá Landsbjörg
Maðurinn sem féll í jökulsprungu á Vatnajökli fyrr í dag er kominn upp úr sprungunni. Hann og félagi hans eru komnir í skála Jöklarannsóknafélags Íslands á Grímsfjalli. Maðurinn er slasaður en þó ekki alvarlega.
Björgunarsveitafólk er komið á jökulinn og stefnir á slysstað bæði á vélsleðum og bílum en þyrla Landhelgisgæslunnar gat ekki lent á jöklinum. Gert er ráð fyrir því að fyrstu björgunarsveitamenn komi í skálann upp úr klukkan hálf fjögur. Þar verður hlúð að manninum og hann fluttur undir læknishendur.
Maðurinn komst upp úr sprungunni

Tengdar fréttir

Féll í sprungu á Vatnajökli
Björgunarsveitir og þyrla LHG kölluð út.

Góð skilyrði á jöklinum þar sem ferðamaður féll ofan í sprungu
Samband næst við manninn og lítur út fyrir að staðan sé ekki jafnalvarleg og óttast var í fyrstu.